Raforkukerfið útskýrt Árið 2003 voru samþykkt ný raforkulög á Alþingi og við það er skilið á milli framleiðslu og sölu rafmagns annarsvegar og flutnings og dreifingar hinsvegar. Tilgangurinn var að koma á samkeppni í framleiðslunni og söluþættinum, en láta flutning og dreifingu rafmagnsins áfram lúta eðlilegum sérleyfisákvæðum og ströngu opinberu eftirliti. Aðskilnaðurinn var gerður að evrópskri fyrirmynd, með það í huga að láta samkeppnina leiða til hagræðingar og sjálfbærrar nýtingar á auðlindinni, notendum rafmagnsins og eigendum að auðlindinni til hagsældar. Skipulag orkukerfis landsins er í grófum dráttum eftirfarandi: Nokkur orkuframleiðslufyrirtæki framleiða rafmagn og setja inn á flutningskerfi raforku. Langstærsta framleiðslufyrirtækið er Landsvirkjun, sem framleiðir 71% allrar raforkunnar, Orka náttúrunnar framleiðir um 19% og HS Orka 7%. Orkusalan, Fallorka, Orkubú Vestfjarða og fleiri smærri fyrirtæki framleiða þau 3% sem eftir eru. Segja má að öll framleiðslan fari inn á flutningskerfi Landsnets, sem annast og ber ábyrgð á meginflutningskerfinu. Stóriðjufyrirtækin og dreifiveitur rafmagns fá rafmagnið frá flutningskerfi Landsnets og dreifa orkunni til notenda, hver á sínu afmarkaða dreifiveitusvæði, en sölufyrirtækin selja það svo til endanlegs notanda. Flutnings- og dreifiveiturnar eru einkaréttarfyrirtæki í eigu opinberra aðila að mestu, en framleiðslu- og sölufyrirtækin eru eins og ofar greinir, fyrirtæki í samkeppni og ekki takmörkuð við ákveðin afmörkuð landsvæði. Dreifiveitur rafmagns eru: HS Veitur sem dreifa raforku á Reykjanesskaga, í Hafnarfirði, á Álftanesi og syðri hluta Garðabæjar, í Árborg og í Vestmannaeyjum Norðurorka sem dreifir raforku á Akureyri Orkubú Vestfjarða sem dreifir raforku á Vestfjarðakjálkanum Veitur ohf sem dreifir raforku í Reykjavík, á Seltjarnarnesi, í Kópavogi, í Garðabæ norðan Hraunholtslækjar (Vífilsstaðalækjar), Mosfellsbæ, Kjalarnesi og á Akranesi. RARIK sem dreifir raforku út um allt land að slepptum Vestfjörðum, suðvesturhorninu, Árborg, Vestmannaeyjum og Akureyri.