Um rannsóknina

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, ásamt nokkrum af aðildarfyrirtækjum sínum, stendur fyrir nýrri rannsókn á fyrirkomulagi hleðslu raf- og tengiltvinnbíla á Íslandi. Rannsókn sem þessi hefur ekki verið framkvæmd hérlendis áður.

Með aukinni rafbílavæðingu og orkuskiptum í samgöngum þarf að tryggja að innviðir raforkukerfis á Íslandi séu undirbúnir fyrir aukið álag sem fylgir í kjölfarið. Niðurstöður rannsóknarinnar mun gefa mikilvægar upplýsingar um áhrif rafbíla á raforkukerfið, hvernig fyrirkomulagi á hleðslu þeirra er háttað og þar með á ákvarðanir um uppbyggingu innviða, svo rafbílaeigendur fái sem besta þjónustu um leið og þeim fjölgar.

Markmið rannsóknarinnar

Markmið rannsóknar er að afla vitneskju um hvar og hvenær raf- og tengiltvinnbílar eru hlaðnir í þeim tilgangi að geta spáð fyrir um áhrif þessara bíla á raforkukerfið. Með auknum fjölda rafbíla á götunum eru raungögn um hleðsluhegðun nauðsynleg til þess að hægt sé að tryggja að orku- og veitufyrirtæki séu örugglega í stakk búin til þess að mæta orkuskiptum í samgöngum og bjóða áfram upp á góða þjónustu fyrir raf- og tengiltvinnbílaeigendur.

Niðurstöður

Þrátt fyrir að innviðir orku- og veitugeirans séu víða öflugir og almennt í stakk búnir til að mæta nýjum orkuskiptum er mikilvægt að afla sem ítarlegustu upplýsinga fyrir áframhaldandi uppbyggingu.

Niðurstöður rannsóknarinnar munu nýtast við að spá fyrir um framtíðarnotkun og álag á einstökum stöðum í raforkudreifikerfinu.
Niðurstöðurnar geta þannig veitt upplýsingar um hvort og hvað þarf að gera til að bæta innviði orku-, flutnings- og veitukerfa til þess að mæta orkuskiptunum og veita rafbílaeigendum áfram sem besta þjónustu.
Þar að auki mun rannsóknin gefa áhugaverðar niðurstöður um aðstæður fyrir rafbíla hérlendis. Hægt verður t.d. að sjá hvernig eyðsla og orkuþörf rafbíla er eftir mismunandi aðstæðum, einkum breytingum á útihitastigi.

Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar opinberlega.

Persónuvernd

Okkur er umhugað um friðhelgi einkalífs. Öll gögn sem Samorka fær í hendur að rannsókn lokinni verða ópersónugreinanleg.

Til að tryggja vernd persónuupplýsinga eru gögn sem mælibúnaður safnar unnin í tveimur aðskildum áföngum, þ.e. gögnin eru gerð ópersónugreinanleg af FleetCarma áður en til vinnslu þeirra kemur. Það er gert með þeim hætti að nöfn þátttakenda og bílnúmer eru tekin út og í stað þess sett inn ópersónugreinanlegt auðkenni. Samorka fær upplýsingar um hvort bíll er hlaðinn á heimili eða vinnustöð, en ekki hvaða heimili eða hvaða vinnustöð, og hvort um hraðhleðslu sé að ræða eða annars konar hleðslu. Samorka fær ekki upplýsingar um staðsetningu og ferðir bílsins þar á milli og mun ekki geta tengt saman bíl og einstaka þátttakendur.

Möguleiki er að gerðar verði frekari kannanir á hleðsluhegðun innan einhverra ára til að fá samanburð eftir því sem rafbílum fjölgar. Því verða ópersónugreinanleg gögn varðveitt áfram.

Hvernig fer rannsóknin fram?

Mælibúnaðurinn kemur frá kanadíska fyrirtækinu FleetCarma Ltd. og er settur upp í bílum þátttakenda. Þessum búnaði fylgir hugbúnaður sem safnar nauðsynlegum upplýsingum sem síðan er hægt að nota til að greina hleðsluferlanna. Vert er að taka fram að búnaðurinn er smár, notar lítið sem ekkert rafmagn og hefur ekki áhrif á drægni bílsins. Gagnasöfnun stendur yfir í 12 mánuði.

Haft er samband við þá rafbílaeigendur sem lenda í úrtaki rannsóknarinnar og þeim boðin þátttaka. Forsenda þess að rannsóknin geti farið fram er að nægilega margir eigendur raf- og tengiltvinnbíla taki þátt. Eftir að skráning og rafrænt samþykki hefur borist í gegnum vefsíðu Samorku er næsta skref að koma búnaði í hendur þátttakenda. Frekari upplýsingar um hvernig má finna hér.
Tæki er sett upp í bíl og verður þar yfir allt rannsóknartímabilið, samtals 12 mánuði. Þegar þessu tímabili lýkur, og þar með gagnasöfnun, skila þátttakendur tæki aftur til Samorku. Þegar búnaður hefur komist til skila fá þátttakendur 3000 kr. gjafabréf fyrir þátttöku sína. Við tekur úrvinnsla á þessum upplýsingum sem nýtist við framtíðarákvarðanir til að gera raforkukerfið áreiðanlegra og betra fyrir orkuskipti í samgöngum á Íslandi.

Möguleiki er að gerðar verði frekari kannanir á hleðsluhegðun innan einhverra ára til að fá samanburð eftir því sem rafbílum fjölgar. Því verða ópersónugreinanlega gögn varðveitt en persónulegum gögnum eytt.

Ferli þátttakenda í rannsókninni er sýnd myndrænt hér:

Hverjir taka þátt?

Tryggt er að þátttakendur komi úr öllum hópum notenda. Þeirra sem búa í þéttbýli/dreifbýli, fjölbýli/sérbýli og bæði sé kannað hreina rafbíla sem og tengiltvinnbíla. Upplýsingar um rafbíla fást úr ökutækjaskrá og eru þátttakendur valdir úr þeim hópi út frá mismunandi landsvæðum, mismunandi svæðum innan höfuðborgarsvæðisins og mismunandi tegundum bíla til að tryggja sem mesta breidd og ólíkar aðstæður.  Þetta er einnig gert til að tryggja að upplýsingar fáist eftir ólíkum dreifiveitu svæðum og mismunandi aðstæður milli þeirra. Í úrtaki verða bæði hreinir rafbílar og tengiltvinnbílar.

Aðilar rannsóknar

Þeir aðilar sem standa að rannsókninni eru Samorka – samtök orku- og veitufyrirtækja, Fallorka, HS Orka, HS Veitur, Landsnet, Landsvirkjun, Norðurorka, Orka Náttúrunnar, Orkubú Vestfjarða, Orkusalan, RARIK og Veitur.