Rafmagn ALLIR ÞURFA AÐ VELJA SÉR SÖLUAÐILA RAFMAGNS Sala á rafmagni annars vegar og dreifing rafmagns hinsvegar er aðskilin starfsemi sem sinnt er af mismunandi fyrirtækjum og skýrt er betur neðar á síðunni. Rafmagnssala er á samkeppnismarkaði en dreifing rafmagns er í höndum sérleyfisfyrirtækja. Allir þurfa að velja sér söluaðila rafmagns og geta neytendur valið við hvaða fyrirtæki þeir skipta. Búseta skiptir ekki máli þegar kemur að vali á söluaðila rafmagns; öllum er frjálst að skipta við það fyrirtæki sem þeir kjósa. Að velja sér raforkusala er einfalt og fljótlegt. Hægt er að fara inn á heimasíður raforkusölufyrirtækis og ganga frá viðskiptasamningi. Söluaðilar rafmagns eru (í stafrófsröð): Atlantsorka Fallorka HS Orka N1 Rafmagn Orka heimilanna Orka náttúrunnar Orkubú Vestfjarða Orkusalan Straumlind Mikilvægt er að samningur við söluaðila rafmagns sé til staðar. Annars verður lokað fyrir rafmagnið því dreifiveitum er óheimilt samkvæmt lögum að dreifa rafmagni inn á heimili og fyrirtæki. Ekki er opnað fyrir rafmagnið á ný fyrr en raforkusali hefur verið valinn. Að láta opna á ný eftir lokun felur einnig í sér töluverðan kostnað fyrir neytandann. Neytendur geta ekki valið sér dreifiaðila rafmagns líkt og sölu. Dreifiveitur starfa eftir svæðum og aðeins eitt fyrirtæki sér um dreifingu rafmagnsins á hverju svæði. Nánar er fjallað um dreifiveitur og starfssvæði þeirra hér neðar á síðunni. 99,99% AF RAFMAGNI Á ÍSLANDI ER FRAMLEITT MEÐ ENDURNÝJANLEGUM ORKUGJÖFUM Raforkuframleiðsla á Íslandi skilar hverfandi magni af gróðarhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Í Evrópu er hlutfall gróðurhúsalofttegunda af raforkuframleiðslu allt að 80%. RAFORKUKERFIÐ ÚTSKÝRT Árið 2003 voru samþykkt ný raforkulög á Alþingi og við það er skilið á milli framleiðslu og sölu rafmagns annarsvegar og flutnings og dreifingar hinsvegar. Tilgangurinn var að koma á samkeppni í framleiðslunni og söluþættinum, en láta flutning og dreifingu rafmagnsins áfram lúta eðlilegum sérleyfisákvæðum og ströngu opinberu eftirliti. Aðskilnaðurinn var gerður að evrópskri fyrirmynd, með það í huga að láta samkeppnina leiða til hagræðingar og sjálfbærrar nýtingar á auðlindinni, notendum rafmagnsins og eigendum að auðlindinni til hagsældar. Skipulag orkukerfis landsins er í grófum dráttum eftirfarandi: Nokkur orkuframleiðslufyrirtæki framleiða rafmagn og setja inn á flutningskerfi raforku. Hlutfall framleiðenda var svona fyrir árið 2023: Landsvirkjun: 73% ON: 17% HS Orka: 7% Orkusalan: 1% Orkubú Vestfjarða: 0,4% Aðrir framleiðendur: 1,6% Heimild: Orkustofnun Landsvirkjun 71% Orka náttúrunnar 19% HS Orka 7% Ýmsir 3% Segja má að öll framleiðslan fari inn á flutningskerfi Landsnets, sem annast og ber ábyrgð á meginflutningskerfinu. Stóriðjufyrirtækin og dreifiveitur rafmagns fá rafmagnið frá flutningskerfi Landsnets og dreifa orkunni til notenda, hver á sínu afmarkaða dreifiveitusvæði, en sölufyrirtækin selja það svo til endanlegs notanda. Flutnings- og dreifiveiturnar eru einkaréttarfyrirtæki í eigu opinberra aðila að mestu, en framleiðslu- og sölufyrirtækin eru eins og ofar greinir, fyrirtæki í samkeppni og ekki takmörkuð við ákveðin afmörkuð landsvæði. Dreifiveitur rafmagns eru: • HS Veitur sem dreifa raforku á Reykjanesskaga, í Hafnarfirði, á Álftanesi og syðri hluta Garðabæjar, í Árborg og í Vestmannaeyjum • Norðurorka sem dreifir raforku á Akureyri • Orkubú Vestfjarða sem dreifir raforku á Vestfjarðakjálkanum • Veitur ohf sem dreifir raforku í Reykjavík, á Seltjarnarnesi, í Kópavogi, í Garðabæ norðan Hraunholtslækjar (Vífilsstaðalækjar), Mosfellsbæ, Kjalarnesi og á Akranesi. • RARIK sem dreifir raforku út um allt land að slepptum Vestfjörðum, suðvesturhorninu, Árborg, Vestmannaeyjum og Akureyri. SAGA RAFVÆÐINGAR Miðað er við að hér á landi hafi fyrst verið kveikt á rafmagnsljósaperu árið 1899, en þá var olíumótor Ísafoldar tengdur rafala. Árið 1904 hófst síðan rafmagnsframleiðsla í Hafnarfirði, þar sem Hamarskotslækurinn var virkjaður til ljósa. Á næstu árum stofnsetti hvert sveitarfélagið af öðru rafveitur og var rafmagnið ýmist framleitt með olíu eða vatnsafli. Eftir síðari heimstyrjöldina var rafmagnsnotkun orðin almenn í þéttbýli í landinu og var þá farið að nota rafmagn til að knýja ýmsar vélar í iðnaði og í atvinnulífinu. Eftir 1960 rísa svo stærri vatnsaflsvirkjanir vítt og breitt um landið. Þróunin hefur verið býsna hröð – nú er raforkuframleiðslan í landinu ein sú umhverfisvænsta sem þekkist í heiminum. Frumkvæði að rafvæðingunni kom frá athafnasömum einstaklingum, en færðist síðan að mestu til sveitarfélaganna og að lokum til ríkisins. Þannig má segja að raforkuiðnaðurinn sé í opinberri eigu, með einni undantekningu. Spurt og svaraðHvernig verður rafmagn til? Rafmagn hefur alltaf verið til í náttúrunni, eins og til dæmis í eldingum, en það má einnig búa það til. Rafmagn er náttúrufyrirbæri sem byggir á hreyfingu hlaðinna agna og til að búa það til þarf að beisla hreyfiorku þessarra hlöðnu agna. Hlutir í kyrrstöðu hafa stöðuorku en hlutir á hreyfingu hafa hreyfiorku. Vatn hefur stöðuorku, en þegar það rennur eða fellur breytist stöðuorkan í hreyfiorku. Til að framleiða rafmagn notum við hreyfiorkuna til að snúa hverfli/túrbínu. Hægt er að snúa túrbínunni með hreyfiorku frá mismunandi orkugjöfum. Í vatnsaflsvirkjunum er hreyfiorka vatns, eða fallhæðin, nýtt til að snúa túrbínunni. Í jarðhitavirkjunum er borað eftir vatnsgufu sem svo snýr túrbínunni og þar með er hægt að framleiða rafmagn. Af hverju fæ ég tvo aðskilda rafmagnsreikninga? Í raforkulögum frá árinu 2003 er kveðið á um aðskilnað orkufyrirtækjanna, annarsvegar milli fyrirtækja í framleiðslu og sölu og hinsvegar fyrirtækja í flutningi og dreifingu á raforkunni. Flutningur og dreifing er veiturekstur með einkarétt til rekstrar á starfssvæði sínu, en framleiðsla og sala er samkeppnisrekstur og lýtur reglum samkeppnislaga. Til að tryggja að einkaréttarhlutinn greiði ekki niður kostnað við samkeppnishlutann, þá ber að skilja algjörlega (stjórnunarlega, rekstrarlega og fjárhagslega) á milli þessara þátta og hluti þessa aðskilnaðar er að útgáfa reikninga sé aðskilin, nokkuð sem leiðir til þess að raforkukaupandinn fær senda tvo rafmagnsreikninga. Hvað er virkjun? Virkjun er mannvirki sem notað er til að framleiða rafmagn. Í vatnsaflsvirkjun er vatn gjarnan flutt úr uppistöðulóni í gegnum hallandi göng inn í stöðvarhús, þar sem það er látið knýja túrbínur og drífa rafal sem býr til rafmagn. Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi í dag (2014) eru tæplega 50 talsins. Langstærsta fyrirtækið á þessu sviði er Landsvirkjun. Uppsett afl í vatnsorkuverum Landsvirkjunar er tæp 1900 MW og orkuvinnsla á ársgrundvelli rúmar 13.000 GWst. Næststærsti framleiðandi vatnsorku á Íslandi er Orkusalan með tæplega 37 MW uppsett afl og 80 GWst orkuvinnslu á ári. Orkubú Vestfjarða og Orka náttúrunnar hafa hvort um sig um 11 MW uppsett afl í sínum vatnsaflsvirkjunum, sem eru alls 10 talsins. Aðrir framleiðendur vatnsorku reka afar smáar virkjanir sem samtals framleiða langt innan við 1% af vatnsafli í landinu. Jarðvarmavirkjanir á Íslandi í dag eru sjö talsins og eru reknar af fjórum fyrirtækjum. Langstærsta fyrirtækið á þessu sviði er Orka náttúrunnar með 423 MW uppsett afl í Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjunum. HS Orka rekur jarðvarmavirkjanir í Svartsengi og á Reykjanesi og er uppsett afl þeirra samtals tæp 180 MW. Landsvirkjun rekur tvær jarðvarmavirkjanir, aðra í Kröflu og hina í Bjarnarflagi, með samanlagt uppsett afl upp á 63 MW og orkuvinnslu um 520 GWst/ár. Minnsta jarðvarmavirkjun landsins, uppsett afl 2 MW og orkuvinnsla um 14 GWst/ár, er rekin af Orkuveitu Húsavíkur. Hvað er uppistöðulón? Uppistöðulón, eða virkjunarlón, þjóna þeim tilgangi að geyma orku sem framleidd er í virkjunum landsins. Með því að geyma orkuna sem stöðuorku í uppistöðulóni og nýta hana þegar á þarf að halda er hægt að stýra raforkuframleiðslu með nákvæmum hætti. Á Íslandi er til dæmis notað meira rafmagn á veturna en á sumrin, en hins vegar er vatnið í ám og vötnum minna á veturna. Til að tryggja næga orku á veturna er vatninu safnað í lón og miðlað til virkjana til rafmagnsframleiðslu eftir þörfum. Uppistöðulón eru þess vegna mjög mikilvægur þáttur í raforkukerfi landsins. Hvað er rammaáætlun? Rammaáætlun er áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem ýtt var úr vör árið 1999. Hún hvílir á hugmyndafræðilegum grunni sjálfbærrar þróunar og á að skoða málin á sem breiðustum grundvelli og styðjast við þekkingu úr fjölmörgum greinum raun- og hugvísinda, þar sem henni er ætlað að sætta mismunandi sjónarmið um nýtingu landsvæða. Ítarlegar upplýsingar um rammaáætlun, lög um hana og útskýringar á helstu hugtökum (eins og virkjunarkostur, verndarflokkur og biðflokkur) má finna á heimasíðu rammaáætlunar. Hver tekur ákvarðanir um hvar skuli virkjað? Orkustofnun skilar inn tillögum um orkukosti til verkefnastjórnar. Tillögurnar koma annað hvort frá orkufyrirtækjum eða að frumkvæði stofnunarinnar sjálfrar. Ferlið sem tekur við getur tekið nokkur ár og er ítarlega lýst á heimasíðu rammaáætlunar. Þar koma við sögu verkefnisstjórn rammaáætlunar, umhverfis- og auðlindaráðherra og að lokum Alþingi. Orkukostum er svo skipt niður í þrjá flokka: Orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Í verndarflokki eru þeir kostir sem ekki þykir rétt að ráðast í. Í biðflokki eru þeir virkjunarkostir sem ekki er hægt að taka afstöðu til vegna skorts á gögnum. Í nýtingarflokki eru þeir orkukostir sem talið er að megi ráðast í, verði niðurstaðan sú að undangengnu áralöngu faglegu og lýðræðislegu ferli umhverfismats, skipulagsferla og leyfisveitingaferla. Nánari skilgreiningar á flokkunum má finna á heimasíðu rammaáætlunar. Hver er mælieining raforku? Mælieining raforku er kílóvattstund, táknuð með KWh. Flestir rafmagnsmælar mæla í KWh sem reikningur er svo byggður á. Mælieining afls er vatt táknuð með W. Rafmagnstæki og ljósaperur nota ákveðinn fjölda vatta. Afl virkjana er einnig mælt í vöttum. Sem dæmi er Hellisheiðarvirkjun u.þ.b. 300.000.000 vött eða 300 megavött (MW). Til að finna hversu mikla orku (KWh) rafmagnstæki notar þarf að margfalda afl þess (W) með þeim klukkustundum sem tækið er í gangi. Hvað er megawattstund? Megawatt, eða MW, er eining sem mælir afl, sbr. hestöfl í bifreið. Rafmagn er mælt í W, eða watt, en þar sem sú eining er ákaflega lítil miðað við þau orkukerfi sem við búum við er þægilegra að stækka eininguna og tala um megawatt eða MW. Í einni MW eru 1.000.000 W. Megawattstund, MWst (MWh), er hins vegar margfeldi afls og tíma (klukkustunda) og er eining sem mælir orkunotkun. Hvað er sæstrengur? Sæstrengur er strengur til flutnings á raforku á milli landa, sem lagður er neðansjávar. Að leggja slíkan streng frá Íslandi til annarra landa, til dæmis Bretlands, hefur verið til skoðunar og umfjöllunar áratugum saman. Verkefnið þykir í dag tæknilega framkvæmanlegt og væntanlega yrði hægt að afla mun hærri verða fyrir orkuna en okkar einangraði raforkumarkaður bíður uppá í dag. Þarna gæti verið tækifæri til að afla þjóðarbúinu mjög mikilla viðbótartekna. Jafnframt þarf þó að skoða framkvæmdaþörf tengda strengnum hérlendis með tilheyrandi umhverfisáhrifum, áhrif á raforkuverð hérlendis (og leiðir til að mæta breytingum á því), val á viðskiptalíkani og auðvitað kostnaðarhliðina. Í ítarlegri skýrslu sem Kvika vann í samstarfi við ýmsa aðila fyrir atvinnuvegaráðuneytið og kynnt var í júlí 2016 er fjallað um kosti og galla verkefnisins og lagt mat á hagkvæmni þess. Hvað er upprunaábyrgð / grænt skírteini? Kerfi upprunaábyrgða (stundum kallaðar græn skírteini) gerir kaupendum raforku í Evrópu kleift að styðja við vinnslu á endurnýjanlegri orku. Ísland er hluti af innri markaði ESB í gegnum EES-samninginn og þar með hluti af þessu kerfi, sem ætlað er að sporna gegn auknum gróðurhúsaáhrifum í krafti aukins hvata til orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum. Með því að kaupa upprunaábyrgð geta raforkukaupendur, á Íslandi sem annars staðar í Evrópu, fengið raforkunotkun sína vottaða sem endurnýjanlega samkvæmt alþjóðlegum staðli. Á Íslandi er nánast öll raforka framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Íslenskir orkuframleiðendur geta því selt upprunaábyrgðir til orkusölufyrirtækja í Evrópu. Sömu ábyrgðina er þó ekki hægt að selja tvisvar og því dragast þessar ábyrgðir frá „bókhaldslegum“ uppruna raforku á Íslandi. Landsnet heldur utan um útgáfu upprunaábyrgða hérlendis. Hvað er rafeldsneyti? Rafeldsneyti (e. e-fuels) er samheiti yfir flokk eldsneytis sem framleitt er úr endurnýjanlegri raforku og öðrum efnastraumum. Rafeldsneyti er kolefnishlutlaus orkugjafi sem nýtist til samgangna eða þar sem ekki er fýsilegt að nota rafmagn beint. Vetni er ein tegund slíks eldsneytis, en einnig er hægt að nota vetnið til að búa til rafammoníak, rafmetan, rafmetanól og rafolíu. Mismunandi ferlar eru notaðir við framleiðslu rafeldsneytis. Í sumum ferlum er vetni notað beint sem hráefni en einnig eru til ferlar, t.d. háhitarafgreining, þar sem raforka er notuð beint inn í framleiðslu rafeldsneytis.