Hitaveitur

Íslenska hitaveitukerfið er einstakt á heimsmælikvarða og eru íslenskir sérfræðingar í geiranum eftirsóttir víða um heim. Öflun heits vatns og rekstur kerfisins eru hátækniverkefni sem krefjast bæði sérþekkingar og reynslu. Þannig eru íslenskir vísindamenn t.d. mjög framarlega í leit að nýtanlegu heitu vatni og gufu, hvort sem um er að ræða til nýtingar rafmagnsframleiðslu, nýtingar í hitaveitum eða annarrar beinnar nýtingar. Að fá eins mikið heitt vatn heim í hús og við þurfum er flókið verkefni, þó því sé oft tekið sem sjálfsögðum hlut.

Það felur t.d. í sér rekstur og viðhald á viðamiklu lagnakerfi og tengdum búnaði, ásamt skynsamri umsjón á jarðhitaauðlindinni sem verið er að nýta. Rúmlega 90% híbýla á Íslandi eru kynt með hitaveitu sem byggir á beinni nýtingu jarðhita. Einnig eru starfræktar nokkrar kyntar hitaveitur, þar sem oftast er notuð raforka sem orkugjafi. Þannig er nær öll húshitun á Íslandi byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum, fyrst og fremst jarðhita.

Samorka - Hitaveita

 

Upphaf hitaveitu er gjarnan miðað við framtak tveggja frumkvöðla árin 1908 og 1909, en mikið átak var gert í þróun hitaveitu hérlendis uppúr 1970, þegar heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði mikið. Einungis eru þannig fáir áratugir síðan Íslendingar nýttu víða olíu til að kynda sín híbýli.

Orkustofnun hefur reiknað út að sparnaður Íslendinga vegna jarðhita til húshitunar í stað olíu nam 89 milljörðum króna árið 2014, eða kr. 272 þúsund á hvert mannsbarn. Sparnaðurinn nam 8,3% af heildar gjaldeyristekjum Íslands það árið. Jafnframt spara hitaveitur mikla losun gróðurhúsalofttegunda, miðað við ef kynt væri með olíu.

HITAVEITUKERFIÐ

Hitaveitur sem eru í Samorku starfa samkvæmt reglugerð og hafa einkaleyfi til reksturs hitaveitu á sínu starfssvæði og kallast þannig einkaleyfishitaveitur. Fjölmargar smærri hitaveitur starfa ekki samkvæmt einkaleyfi og reglugerð. Er áætlaður heildarfjöldi slíkra veitna um 200. Þær nýta flestar heitt vatn úr borholum, laugum eða hverum til húshitunar. Margar sjá einungis stökum sveitabæjum fyrir vatni, en einnig er um að ræða veitur sem veita vatni til fleiri bæja og sumarhúsabyggða eða atvinnustarfsemi á borð við fiskeldi, iðnað og ylrækt.

Dreifikerfi hitaveitu felur í sér að vatni er dælt úr borholum í dælustöð og annaðhvort í heitavatnstanka, eða jafnvel beint til notenda. Umfang dreifikerfis er mjög mismunandi eftir stærð hitaveitu og svæðisbundnum aðstæðum. Heita vatninu er svo annað hvort dælt til notenda eða er sjálfrennandi til notenda. Bakvatnið (sem notandinn hefur nýtt) er oft nýtt aftur ef kostur er, til dæmis með því að blanda því við heitara vatn til að kæla það.

Hitaveitur falla undir orkulög en reglugerðir um einstakar hitaveitur má finna hér á vefsíðu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Hitaveitur sem eru í Samorku starfa samkvæmt reglugerð og hafa einkaleyfi til reksturs hitaveitu á sínu starfssvæði og kallast þannig einkaleyfishitaveitur. Fjölmargar smærri hitaveitur starfa ekki samkvæmt einkaleyfi og reglugerð og eru þá kallaðar einkahitaveitur. Er áætlaður heildarfjöldi slíkra veitna um 200. Þær nýta flestar heitt vatn úr borholum, laugum eða hverum til húshitunar. Margar sjá einungis stökum sveitabæjum fyrir vatni, en einnig er um að ræða veitur sem veita vatni til fleiri bæja og sumarhúsabyggða eða atvinnustarfsemi á borð við fiskeldi, iðnað og ylrækt.

Dreifikerfi hitaveitu felur í sér að vatni er dælt úr borholum í dælustöð og annaðhvort í heitavatnstanka, eða jafnvel beint til notenda. Umfang dreifikerfis er mjög mismunandi eftir stærð hitaveitu og svæðisbundnum aðstæðum. Heita vatninu er svo annað hvort dælt til notenda eða er sjálfrennandi til notenda. Bakvatnið (sem notandinn hefur nýtt) er oft nýtt aftur ef kostur er, til dæmis með því að blanda því við heitara vatn til að kæla það.

Spurt og svarað

Í bókstaflegri merkingu er jarðhiti sá hiti í jörðinni sem er umfram þann hita við yfirborð jarðar. Hitinn vex eftir því sem dýpra er farið. Almennt er orðið jarðhiti notað yfir heitt vatn og gufu sem kemur upp úr jörðinni á jarðhitasvæðum.

Jarðhitavatn á Íslandi er úrkoma sem kemst í snertingu við heitt berg, en Ísland er á flekamótum á virku eldfjallasvæði. Kalt vatn sígur niður í berggrunninn, hitnar upp og stígur upp til yfirborðs í hverum og laugum.

Jarðhitinn er ein helsta undirstaðan að velmegun Íslendinga. Hann hefur efnahagslegan, umhverfislegan og ekki síst samfélagslegan ávinning í för með sér. Jarðhiti er notaður til iðnaðar, til raforkuvinnslu, húshitunar, fiskeldis, snjóbræðslu, við sundlaugar, ylrækt og fleira.

Borhola verður til þegar borað er eftir vatni á há- eða lághitasvæði. Ein borhola er mikið og dýrt mannvirki þó ekki sjáist mikið á yfirborði. Borað er niður á allt að þrjú þúsund metra dýpi og pípur lagðar í holuna. Gufan, sem kemur upp, er notuð til að snúa hverflum sem framleiða rafmagn. Einnig er hitinn notaður í að hita upp byggingar og heimili.

Jarðhitasvæðum á Íslandi er skipt í lág- og háhitasvæði eftir hámarkshita í efstu jarðlögunum. Á lághitasvæðum er hámarkshiti lægri en 150°C á 1 km dýpi en yfir 200°C á háhitasvæðum. Háhitasvæðin raða sér á gosbelti Íslands en lághitasvæðinu eru á jaðri þess og út frá því. Á mörkum gosbeltisins er farið að tala um sjóðandi lághitasvæði . Með hugtakinu sjóðandi lághitasvæði er átt við svæði þar sem vinnsluhiti í borholum er yfir suðumarki en undir 200°C.

Lághitasvæðin eru að mestu nýtt til hitunar en háhitasvæðin til rafmagnsframleiðslu og/eða hitunar og iðnaðar.