Menntaverðlaun atvinnulífsins 2025 Menntadagur atvinnulífsins fer fram á Hilton Nordica þann 11. febrúar undir yfirskriftinni Störf á tímamótum . Menntadagurinn er sameiginlegt verkefni SA og allra aðildarsamtaka þar sem fræðslu- og menntamál atvinnulífsins eru í forgrunni. Á deginum verður m.a. 25 ára afmæli starfsmenntasjóðanna fagnað, menntaverðlaun atvinnulífsins afhent og staða menntunar rædd í arinspjall við forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur. Eftir formlega athöfn stendur fólki til boða að taka þátt í tveimur lotum af áhugaverðum málstofum og kynna sér árangur fjölbreyttra fyrirtækja í fræðslu- og menntamálum á sérstöku markaðstorgi dagsins. Húsið opnar kl. 8:30 með léttum morgunverði á markaðstorginu fyrir framan aðalsalinn. Formleg dagskrá hefst síðan kl. 9 og verður henni streymt á öllum helstu miðlum. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu dagsins. Fyrri lota af málstofum (10:00 – 10:40): How do you like atvinnulífið? Þurfum við öll að kunna íslensku? Ef já hver á þá að kenna okkur íslensku? Hvað er í boði og hver á að borga? Liggur ábyrgðin hjá fyrirtækjum, stjórnvöldum eða starfsfólkinu sjálfu? Á þessari málstofu verður farið yfir áskoranir og ávinning þess að efla íslenskukunnáttu meðal starfsfólks og hvort við þurfum yfir höfuð öll að kunna íslensku? Starfsánægja og samkeppnishæfni – Fagbréf atvinnulífsins Á málstofunni verða örinnlegg sem fjalla um mikilvægi þess að gera hæfni fólks í starfi sýnilega, meta hana og staðfesta, bæði fyrir fyrirtæki og starfsfólkið sjálft. Í kjölfarið verða umræður þar sem rædd verður framtíðarsýn og dregnar fram áskoranir og mikilvægi þess að fyrirtæki séu meðvituð um þær leiðir sem hægt er að fara við mat á hæfni og reynslu starfsfólks. Gjafari, spunagreindarsérfræðingur og orkuskiptari óskast! Í nútímasamfélagi verða ný störf og nýjar atvinnugreinar til sem endurspegla breyttar áherslur, tækniframfarir og sjálfbærni. Íslenskt samfélag þarf hæft fólk fyrir þessi nýju atvinnugreinar þar sem áhersla er lögð á að skilja tæknina, nýta hana og hugsa á skapandi hátt. Hvernig tryggjum við að þekkingin fyrir þessi nýju störf verði til staðar um allt land, svo Ísland verði áfram í stakk búið til að halda samkeppnisforskoti á alþjóðamarkaði? Seinni lota af málstofum (11:00 – 11:40): Störf framtíðarinnar – áhrif gervigreindar á hæfniþörf Líkur standa til þess að gervigreind muni breyta vinnumarkaðinum hraðar en við höfum áður séð, og nýlegar tækniframfarir hafa þegar haft mikil áhrif á störf okkar. Á þessari málstofu verður rætt um hvernig gervigreind hefur áhrif á vinnumarkaðinn, framtíðarstörf okkar og þá hæfni sem líklega verður krafist á vinnumarkaði komandi ára. Rætt verður um mikilvægi menntunar í þessu sambandi og hlutverk atvinnulífs og skólakerfis í þeirri vegferð. Virkt fræðslustarf skapar betri vinnustað Á málstofunni verður rætt um nýjustu strauma og stefnur í mennta- og fræðslumálum fyrirtækja út frá ólíkum atvinnugreinum. Byrjað er á stuttu inngangserindi um hina ýmsu möguleika styrkja þegar kemur að fræðslu og í kjölfarið verða pallborðsumræður þar sem rætt verður um helstu áherslur í fræðslustarfi fyrirtækja og framtíðarhorfur í þeim efnum. Gervigreind og námsgögn – menntafyrirtæki og inngilding Í málstofunni verður fjallað um hvernig gervigreind og nýsköpun stuðla að framþróun í menntun með því að breyta nálgun við gerð námsefnis og einstaklingsmiðað nám. Menntatæknifyrirtæki kynna áhugaverð dæmi sem sýna hvernig samvinna nýsköpunarsamfélags, atvinnulífs og menntakerfis getur skapað betri námstækifæri fyrir alla. Skráning á daginn og málstofur fer fram hér