Hugtök og skilgreiningar

Borhola verður til þegar borað er eftir vatni á há- eða lághitasvæði. Ein borhola er mikið og dýrt mannvirki þó ekki sjáist mikið á yfirborði. Borað er niður á allt að þrjú þúsund metra dýpi og pípur lagðar í holuna. Gufan, sem kemur upp, er notuð til að snúa hverflum sem framleiða rafmagn. Einnig er hitinn notaður í að hita upp byggingar og heimili.

Dreifiveita sér um að koma rafmagni til heimila og fyrirtækja.

Flutningsfyrirtækið Landsnet sér um að koma raforkunni á milli landshluta en dreifiveita tekur svo við henni og kemur til endanotenda.

Flutningur og dreifing raforku er sérleyfisstarfsemi sem þýðir að einungis eitt fyrirtæki má sinna þeirri þjónustu á hverju svæði. Það fer því eftir hvar notandinn er staddur hvaða dreifiveita þjónustar hann. 

Dreifiveiturnar eru HS Veitur, Norðurorka, Orkubú Vestfjarða, RARIK og Veitur.

Endurnýjanlegir orkugjafar eru unnir frá orkulind sem endurnýjar sig stöðugt þótt af henni sé tekið og helst þannig í jafnvægi af náttúrunnar hendi. Dæmi um endurnýjanlegar orkulindir eru vatn, jarðvarmi, vindur og sól.

Flutningskerfi eru raflínur og önnur mannvirki sem flytja raforku frá virkjunum að borgar- og bæjarmörkum um allt land. Þar taka önnur fyrirtæki, dreifiveitur, við raforkunni og koma henni til mín og þín.

Flutningskerfið flytur mikið magn raforku á hárri spennu á milli landshluta, en dreifikerfið dreifir síðan raforkunni á lægri spennu til einstakra notenda.

Landsnet sér um rekstur flutningskerfisins á Íslandi.

Til fráveitu telst allt lagnakerfi sem flytur frárennsli frá heimilum, stofnunum, atvinnufyrirtækjum, götum, gönguleiðum, lóðum og opnum svæðum.

Frárennsli er rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt er í fráveitur.

Segja má að tvö meginmarkmið fráveitna séu annars vegar að taka við og flytja fráveituvatn frá samfélaginu og hins vegar að meðhöndla fráveituvatn þannig að það hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið.

Frumorkunotkun er heildarmagn orku sem er notuð í landinu. Í dag er þetta þá allur jarðvarmi, öll raforka og öll olía samanlagt.  

Ákveðnar lofttegundir í andrúmslofti jarðar safna í sig varmageislun frá jörðinni og valda áhrifum sem virka eins og gróðurhús – hitinn safnast upp í andrúmsloftinu og veldur því að það hitnar. Þessar lofttegundir eru þess vegna stundum kallaðar gróðurhúsalofttegundir. Þær eru til dæmis vatnsgufa (H2O), koldíoxíð (CO2), metan (CH4), óson (O3), glaðloft (N2O), brennisteinshexaflúoríð (SF6) og ýmis halógenkolefni.

Gróðurhúsalofttegundirnar eru aðeins lítill hluti lofthjúpsins, eða um 1%. Köfnunarefni (N2) og súrefni (O2) mynda samanlagt 99% lofthjúpsins og gleypa ekki varmageislun frá jörðu.

Hlýnun jarðar stafar að lang mestu leyti frá losun koldíoxíðs við brennslu á jarðefnaeldsneytum á borð við olíu, kol og gas. Hérlendis er nær öll raforka og húshitun hins vegar unnin með endurnýjanlegum orkugjöfum á borð við vatnsafl og jarðvarma.

Orka, sem unnin er úr endurnýjanlegum orkugjöfum, er oft kölluð græn orka því hún er umhverfisvæn.

Jarðvarmi og vatnsafl, vind- og sólarorka er umhverfisvæn orka – hún felur ekki, eða að mjög takmörkuðu leyti, í sér losun koltvísýrings og mengun umhverfisins. Orkan er endurnýjanleg sem þýðir að orkulindin endurnýjar sig stöðugt þegar tekið er af henni, ólíkt orku sem unnin er úr jarðefnaeldsneyti eins og kolum og olíu.

Unnið er að því á heimsvísu að auka hlut grænnar orku á kostnað jarðefnaeldsneytis til að koma í veg fyrir of mikla hlýnun jarðar.

Á Íslandi er eingöngu framleidd græn orka og græn orka meirihluti allrar orku sem notuð er.

Jarðefnaeldsneyti er orkugjafi sem unninn er úr jarðlögum, t.d. bensín, olía, gas og kol. Jarðefnaeldsneyti er takmörkuð auðlind, því jarðlögin endurnýjast ekki. Þessar auðlindir fara því þverrandi með hverjum deginum. Notkun jarðefnaeldsneytis veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.

Jarðefnaeldsneyti um 15% þeirrar orku sem notuð er í landinu og falla nánast allar samgöngur þar undir. Allt jarðefnaeldsneyti sem notað er á Íslandi er flutt inn og kostar þar með erlendan gjaldeyri. Eins og staðan er í dag notum við um milljón tonn af olíu á hverju ári og borgum 100 milljarða fyrir.

Loftslagsmarkmið eru markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til að koma í veg fyrir skaðlega hlýnun jarðar. Stjórnvöld um allan heim hafa sett sér slík markmið. 

Loftslagsmarkmið Íslands eru með þeim metnaðarfyllstu á heimsvísu. Í ríkisstjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna frá árinu 2021 var áhersla lögð á að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni, nái kolefnishlutleysi í síðasta lagi árið 2040 og verði á sama tíma orðið óháð jarðeldsneyti, fyrst allra ríkja í heiminum.

Megawattstund er eining sem mælir orkumagn.

Orkupakki er heiti yfir regluverk Evrópusambandsins í orkumálum. Markmið regluverksins er að vernda neytendur og stuðla að samkeppni til hagsbóta fyrir alla, stuðla að sanngjörnum orkuskiptum og öryggi með sameiginlegum reglum fyrir alla. 

Regluverkið heitir „energy package“ á ensku og hefur því fengið þessa beinu íslensku þýðingu; orkupakki.

Orkuskipti er þegar skipt er úr einum orkugjafa í annan, eins og núna þegar við munum færa okkur frá jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa. 

Það yrðu þriðju orkuskiptin á Íslandi. Fyrstu orkuskiptin var rafvæðingin í lok 19. aldar og önnur orkuskiptin var hitaveituvæðing landsins.

Orkuþörf er það magn orku sem samfélagið þarf á hverjum tíma. Hægt er að reikna hversu mikla orku samfélag dagsins í dag notar, en einnig eru til spár um hversu mikla orku samfélagið þarf eftir áratugi.

Orkuöryggi er öruggt framboð af orku og traustir flutnings- og dreifiinnviðir, svo samfélagið geti gengið snurðulaust fyrir sig.

Rafeldsneyti (e. e-fuels) er samheiti yfir flokk eldsneytis sem framleitt er úr endurnýjanlegri raforku og öðrum efnastraumum. Rafeldsneyti er kolefnishlutlaus orkugjafi sem nýtist til samgangna eða þar sem ekki er fýsilegt að nota rafmagn beint. Vetni er ein teg­und slíks elds­neyt­is, en einnig er hægt að nota vetnið til að búa til rafamm­on­íak, raf­met­an, raf­met­anól og raf­ol­íu.

Mismunandi ferlar eru notaðir við framleiðslu rafeldsneytis. Í sumum ferlum er vetni notað beint sem hráefni en einnig eru til ferlar, t.d. háhitarafgreining, þar sem raforka er notuð beint inn í framleiðslu rafeldsneytis.

Rammaáætlun er áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem ýtt var úr vör árið 1999. Upprunalegur tilgangur rammaáætlunar var byggður á hugmyndafræðilegum grunni sjálfbærrar þróunar og átti að skoða málin á sem breiðustum grundvelli og styðjast við þekkingu úr fjölmörgum greinum raun- og hugvísinda, þar sem henni var ætlað að sætta mismunandi sjónarmið um nýtingu landsvæða.

Orkustofnun skilar inn tillögum um orkukosti til verkefnastjórnar. Tillögurnar koma annað hvort frá orkufyrirtækjum eða að frumkvæði stofnunarinnar sjálfrar.

Ferlið sem tekur við getur tekið nokkur ár og er ítarlega lýst á heimasíðu rammaáætlunar. Þar koma við sögu verkefnisstjórn rammaáætlunar, umhverfis- og auðlindaráðherra og að lokum Alþingi.

Orkukostum er svo skipt niður í þrjá flokka: Orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Í verndarflokki eru þeir kostir sem ekki þykir rétt að ráðast í. Í biðflokki eru þeir virkjunarkostir sem ekki er hægt að taka afstöðu til vegna skorts á gögnum. Í nýtingarflokki eru þeir orkukostir sem talið er að megi ráðast í, verði niðurstaðan sú að undangengnu áralöngu faglegu og lýðræðislegu ferli umhverfismats, skipulagsferla og leyfisveitingaferla.
Ef orkukostur er flokkaður í nýtingarflokk tekur við margra ára ferli þar sem ráðist er í frekari rannsóknir, umhverfismat og fleira.

Ítarlegar upplýsingar um rammaáætlun, lög um hana og frekari skýringar á hugtökum má finna á heimasíðu rammaáætlunar.

Hitaveitur, fráveitur, vatnsveitur, raforkuflutningsfyrirtæki og raforkudreififyrirtæki teljast til sérleyfisstarfsemi, sem þýðir að einungis eitt fyrirtæki má sinna þeirri þjónustu á hverju svæði.

Starfsemi sérleyfisfyrirtækja er háð stöngum reglum og eftirliti.

Skerðanleg orka, eða stundum kölluð ótryggð orka, er sú orkunotkun sem samið hefur verið um að megi skerða í sérstökum aðstæðum. Til dæmis þegar upp koma erfiðleikar í orkuframleiðslu, eins og lélegt vatnsár, sem veldur því að vatnsaflsvirkjanir hafa minna til að framleiða raforku úr.

Skerðanleg orka er ódýr, þar sem kaupandinn getur ekki gengið að orkunni vísri hvenær sem er. Viðkomandi fær þá orku þegar nóg er til af henni á lægra verði, en þarf að geta aðlagað sína starfsemi að þeim möguleika að skrúfað verði fyrir orkuna. Þetta fyrirkomulag getur hentað ýmsum.

Snjallmælir er stafrænn mælir sem mælir orkunotkun þína í rauntíma og hjálpar okkur þannig að nota rafmagn og heitt vatn á ábyrgan hátt. 

Snjallmælir gerir okkur kleift að taka þátt í orkuviðskiptum framtíðarinnar og stuðla að betri nýtingu auðlindanna okkar. Þeir koma í stað þeirra rafmagns- og vatnsmæla sem þarf að lesa af einu sinni á ári og þar með ferð þú að greiða mánaðarlega af rafmagni og vatni og eftir raunnotkun. Viðskiptavinir hafa meiri möguleika á að fylgjast með orkunotkun sinni og geta þannig stjórnað henni betur.

Sæstrengur er strengur til flutnings á raforku á milli landa, sem lagður er neðansjávar.

Að leggja slíkan streng frá Íslandi til annarra landa, til dæmis Bretlands, hefur verið reglulega til skoðunar og umfjöllunar áratugum saman. Í dag þykir tæknilega framkvæmanlegt að leggja slíkan streng en engin áform eru um slíkt.

Tilgangur með raforkusæstreng væri þá að selja orku sem framleidd er á Íslandi til annarra landa og þá væri einnig hægt að kaupa raforku frá öðrum löndum. Sala á raforku í gegnum sæstreng er líkleg til að afla þjóðarbúinu aukinna tekna þar sem orkan yrði sennilega dýrari en hún er í dag. Jafnframt þyrfti þó að skoða framkvæmdaþörf tengda strengnum hérlendis með tilheyrandi umhverfisáhrifum, áhrif á raforkuverð hérlendis (og leiðir til að mæta breytingum á því), val á viðskiptalíkani og auðvitað kostnaðarhliðina.

Árið 2016 vann Kvika ítarlega skýrslu í samstarfi við ýmsa aðila fyrir atvinnuvegaráðuneytið þar sem fjallað er um kosti og galla sæstrengs og lagt mat á hagkvæmni þess.

Uppistöðulón, eða virkjunarlón, þjóna þeim tilgangi að geyma orku sem framleidd er í virkjunum landsins. Með því að geyma orkuna sem stöðuorku í uppistöðulóni og nýta hana þegar á þarf að halda er hægt að stýra raforkuframleiðslu með nákvæmum hætti. Á Íslandi er til dæmis notað meira rafmagn á veturna en á sumrin, en hins vegar er vatnið í ám og vötnum minna á veturna. Til að tryggja næga orku á veturna er vatninu safnað í lón og miðlað til virkjana til rafmagnsframleiðslu eftir þörfum. Uppistöðulón eru þess vegna mjög mikilvægur þáttur í raforkukerfi landsins.

Upprunaábyrgð / grænt skírteini

Kerfi upprunaábyrgða (stundum kallaðar græn skírteini) gerir kaupendum raforku í Evrópu kleift að styðja við vinnslu á endurnýjanlegri orku. Ísland er hluti af innri markaði ESB í gegnum EES-samninginn og þar með hluti af þessu kerfi, sem ætlað er að sporna gegn auknum gróðurhúsaáhrifum í krafti aukins hvata til orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Með því að kaupa upprunaábyrgð geta raforkukaupendur, á Íslandi sem annars staðar í Evrópu, fengið raforkunotkun sína vottaða sem endurnýjanlega samkvæmt alþjóðlegum staðli.

Á Íslandi er nánast öll raforka framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Íslenskir orkuframleiðendur geta því selt upprunaábyrgðir til orkusölufyrirtækja í Evrópu. Sömu ábyrgðina er þó ekki hægt að selja tvisvar og því dragast þessar ábyrgðir frá „bókhaldslegum“ uppruna raforku á Íslandi.

Landsnet heldur utan um útgáfu upprunaábyrgða hérlendis.

Vindlundur er það svæði kallað þar sem margarvindmyllur eru reistar í þyrpingu (e. wind farm eða wind park). Annað orð yfir vindlund er vindorkuver.

Virkjun er mannvirki sem notað er til að framleiða rafmagn.

Virkjunarleyfi er leyfi sem veitt er samkvæmt lögum til að reisa og reka virkjun. Þó þarf ekki slíkt leyfi fyrir virkjanir sem hafa uppsett afl undir 1 MW. Orkustofnun veitir virkjunarleyfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.