Aðalfundur 2024 Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna og Guðlaug Sigurðardóttir, fjármálastjóri Landsnets tóku í dag sæti í stjórn Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri Selfossveitna, var endurkjörinn í stjórn samtakanna til tveggja ára. Í stjórninni sitja jafnframt áfram þau Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og formaður, Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála hjá HS Orku, Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar og Páll Erland, forstjóri HS Veitna. Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hitaveitu hjá Veitum, tekur sæti sem varamaður í stjórn en þar sitja áfram þau Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF veitna, Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku, Harpa Pétursdóttir, stjórnandi málefna haghafa og stjórnsýslu hjá Orku náttúrunnar og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Í fyrsta sinn í sögu Samorku eru konur í meirihluta stjórnar. Jafnt kynjahlutfall er þegar aðal- og varamenn eru taldir. Stjórn Samorku er þannig skipuð að loknum aðalfundi 2024: Aðalmenn: Kristín Linda Árnadóttir, Landsvirkjun, formaður stjórnar Björk Þórarinsdóttir, HS Orku Guðlaug Sigurðardóttir, Landsneti Páll Erland, HS Veitum Magnús Kristjánsson, Orkusölunni Sigurður Þór Haraldsson, Selfossveitum Sólrún Kristjánsdóttir, Veitum Varamenn: Aðalsteinn Þórhallsson, HEF veitur Eyþór Björnsson, Norðurorku Harpa Pétursdóttir, Orka náttúrunnar Hrefna Hallgrímsdóttir, Veitum Hörður Arnarson, Landsvirkjun Í ályktun aðalfundar kalla samtökin eftir skýrri sýn frá stjórnvöldum um hvernig ná eigi markmiðum um kolefnishlutleysi, þar sem ljóst sé að á þeim vettvangi hafi orðið afturför á undanförnum mánuðum. Samtökin kalla einnig eftir því að leyfisveitingarferli verði einfölduð, þau gerð skilvirkari og að eitt og sama ferlið gildi um allar atvinnugreinar. Samorka leggur til að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verði lögð af. Einnig kemur fram að allir orku- og veituinnviðir landsins standi nú frammi fyrir erfiðum áskorunum og skiptir þá engu hvort horft sé til vatnsveitu, fráveitu, hitaveitu eða raforkumála. Miklar breytingar séu framundan sem kalli á uppbyggingu og miklar fjárfestingar, auk þess sem orku- og veitufyrirtæki glími við erfitt og ófyrirsjáanlegt leyfisveitinga- og skipulagsferli. Ályktun aðalfundar Samorku 2024_samþykkt