Hér má sjá upplýsingar úr upplýsingabæklingi Samorku, Grænt Ísland til framtíðar, sem gefinn var út í nóvember 2024.
Hér fyrir neðan má sjá stutta samantekt og einnig fletta í gegnum bæklinginn, en einnig er hægt að hlaða honum niður hér
Grænt Ísland til framtíðar nóvember 2024
Flest ríki heims hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Ísland er þar enginn eftirbátur. Í Orkustefnu til 2050 segir að Ísland skuli verða óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050 og reiða sig á innlenda orkugjafa. Markmið fráfarandi ríkisstjórnar hið sama fyrir árið 2040.
Til að ná því markmiði og tryggja orkusjálfstæði þjóðarinnar þarf að auka framboð af grænni raforku um 16-22 TWst samkvæmt raforkuspá Landsnets.
Árlega eru á Íslandi notuð milljón tonn af olíu fyrir samgöngur á landi, flug og skipin. Olíunotkun hefur aukist vegna skorts á raforku. Ólíklegt er að orkuskiptin verði að veruleika ef ekki verður aukið við framboð af grænni raforku.
Mikilvægt er að allt samfélagið taki höndum saman í því stóra verkefni sem orkuskiptin eru svo hægt verði að ná sameiginlegum markmiðum.
Fyrirtæki í orku- og veitustarfsemi eru á fullri ferð í orkuskiptum og að undirbúa samfélagið fyrir snjalla og græna orkuframtíð. Í því felast t.d. miklar fjárfestingar í innviðum sem nauðsynlegar eru til að orkuskiptin geti gengið í garð um allt land.
Flestar nágrannaþjóðir okkar búnar að móta sér stefnu í orkuskiptum og meta orkuþörf vegna orkuskiptanna.
Aðgengi að grænni orku á samkeppnishæfu verði er undirstaða samkeppnishæfni atvinnulífs og lífskjara á Íslandi
Orku- og veitustarfsemi er ómissandi stoð í íslensku samfélagi. Árlegt skattspor orku- og veitustarfsemi er um 100 ma. kr. og væri mun hærra ef afleidd verðmætasköpun væri talin með.
Í orku- og veitugeiranum starfa um 1.800 manns víðsvegar um landið og voru meðallaun hæst allra atvinnugreina á tímabilinu 2018-2022.
Mikil óvissa hefur ríkt um regluverk orkuvinnslu og leyfisveitingar undanfarin ár sem hefur skapað umhverfi sem dregur úr nýliðun og nýfjárfestingum. Auknar álögur á raforkuvinnslu gætu dregið úr fjárfestingum og það á sama tíma og ljóst er að orkuskiptin krefjast mikillar uppbyggingar í raforkuframleiðslu.
Hófleg arðsemi orkufyrirtækjanna þýðir að svigrúm til aukinnar sgattgreiðslu eru mjög takmörkuð.
Uppbygging nýrra orkukosta hefur ekki haldið í við fólksfjölgun undanfarin ár. Nú er komin upp alvarleg staða í orkumálum þjóðarinnar og viðvarandi orkuskortur blasir við heimilum og atvinnulífi á Íslandi. Auka þarf orkuörflun svo hægt sé að ráðast í orkuskiptin og snúa við þróun í olíunotkun.
Vegna skerðinga og takmaðrar getu til afhendingu raforku verður samfélagið af miklum veðrmætum í formi glataðra viðskiptatækifæra og útflutningstekna. Atvinnulíf á Íslandi hefur lengi búið við gott aðgengi að grænni orku á samkeppnishæfu verði og slæmar afleiðingar gætu orðið af viðvarandi orkuskorti.
Við þurfum sterk og snjöll flutnings- og dreifikerfi raforku til að takast á við framtíðina.
Áætlaður fjárfestingarkostnaður í innviðum flutnings- og dreifiveitna er 164 ma. kr. tímabilið 2024 – 2028