Grænt Ísland til framtíðar Samorka er hagsmunasamtök fjölbreyttra fyrirtækja og aðila í sjálfbærri orku- og veitustarfsemi. Aðildarfyrirtæki Samorku reka grundvallarinnviði samfélagsins. Það eru hita-, vatns- og fráveitur ásamt fyrirtækjum úr allri virðiskeðju grænnar raforku; framleiðslu, flutningi, dreifingu, sölu og ráðgjöf. Grænt Ísland til framtíðar Við erum stolt af því að íslensk orkuframleiðsla er 100% sjálfbær.Við viljum að Ísland verði áfram leiðandi og fyrirmynd annarra þjóða í nýtingu grænnar orku. Við vinnum markvisst að því markmiði stjórnvalda að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040, knúið og kynt með grænni orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands.Við viljum að fólkið í landinu, heimili og fyrirtæki búi við orku- og veitukerfi í fremstu röð og njóti þeirra lífsgæða sem fylgja orkuöryggi og hagkvæmri sjálfbærri nýtingu innlendra auðlinda. Hvað felst í grænni framtíð Íslands? Réttlát orkuskipti þar sem starfsemi og framleiðsla á Íslandi byggist eingöngu á endurnýjanlegri orku árið 2040. Íslensk orku- og veitustarfsemi verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2040. Framleiðsla grænnar orku á Íslandi verði aukin svo þörfum samfélagsins, nú og til framtíðar, verði mætt. Ferli leyfisveitinga sem tryggir að unnt verði að ná tímasettum markmiðum í loftslagsmálum. Orku- og veitugeirinn Orku- og veitugeirinn leggur sitt af mörkum með því að: Tryggja heimilum og fyrirtækjum í landinu aðgengi að öruggum, hagkvæmum og sjálfbærum orku- og veituinnviðum og að þau búi við orkuöryggi og afhendingargæði í fremstu röð. Styðja við nýsköpun og þróun í orku- og veitustarfsemi til að finna bestu lausnirnar fyrir orkuskiptin, hringrásarhagkerfi og hagkvæman rekstur. Leggja grunn að lífsgæðum, samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og grænum störfum. Hvað gerir Samorka til að ná því fram? Gætir hagsmuna aðildarfyrirtækja með því að nýta sérfræðiþekkingu á faglegan hátt í samtali og samvinnu við stjórnvöld innanlands sem utan. Þannig styrkjum við stöðu þeirra og rekstur. Stuðlar að góðu rekstrarumhverfi fyrir aðildarfyrirtæki sem vinna að uppbyggingu orkunýtinna, hagkvæmra og sjálfbærra orku- og veitukerfa í þágu almennings og atvinnulífs. Vinnur að því að umgjörð og rekstur mikilvægra samfélagslegra innviða á grundvelli sérleyfa tryggi almannahagsmuni og öryggi samfélagsins. Hefur jákvæð áhrif á umgjörð og stjórnsýslu orku- og veitustarfsemi þannig að hún verði skilvirk, skýr og fyrirsjáanleg. Með góðu rekstrarumhverfi fyrirtækja verður rekstur innviða hagkvæmari og samkeppni á orkumarkaði virkari.Beitir sér fyrir skýrum hvötum til fjárfestinga í grænni orkutækni og lausnum.Starfrækir trúverðugan, fræðandi og jákvæðan vettvang um orku- og veitustarfsemi sem miðlar fróðleik og staðreyndum.Eflir vitund um mikilvægi menntunar og hæfni fyrir orku- og veitugeirann til framtíðar í þeim tilgangi að laða að framúrskarandi starfsfólk af öllum kynjum.