Allt um upprunaábyrgðir raforku

Tilgangur og virkni kerfis um upprunaábyrgðir raforku

Upprunaábyrgðir (græn skírteini) í hnotskurn

  • Samkvæmt lögum er Ísland hluti af evrópska orkumarkaðnum og þar með vottunarkerfi um uppruna rafmagns.
  • Upprunaábyrgðir styðja við endurnýjanlega orkuframleiðslu og þar með sporna þær við hlýnun jarðar.
  • Án upprunaábyrgðar telst rafmagnið vera úr sameiginlegum orkupotti Evrópu. Þess vegna koma orkugjafar sem ekki eru notaðir á Íslandi, eins og til dæmis kjarnorka, fram á samantekt Orkustofnunar um uppruna raforku hér á landi.
  • Þú notar endurnýjanlega orku á Íslandi en til þess að fá hana vottaða sem slíka þurfa upprunaábyrgðir að fylgja.

ALGENGAR SPURNINGAR: 

Upprunaábyrgðir: Hvað er það?

  • Upprunaábyrgðir voru teknar upp til að sporna við hlýnun jarðar í samræmi við alþjóðlega sáttmála.
  • Upprunaábyrgðir eru til þess að framleiðendur grænnar orku fái hærra verð fyrir hana – þannig verði meira framleitt af henni.
  • Upprunaábyrgðir eru staðfesting á að ákveðið magn rafmagns hafi verið framleitt á endurnýjanlegan hátt.
  • Upprunaábyrgðir votta rafmagnið með viðurkenndum hætti. Fyrir þá vottun þarf að greiða eins og aðrar alþjóðlegar vottanir. Engin skylda er til að kaupa þessa vottun, en einhverjir gætu séð hag í því að gera það.
  • Upprunaábyrgðir hafa hvorki áhrif á aðrar loftslagsaðgerðir sem miðast að því að minnka losun né á skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

Af hverju selja íslensk orkufyrirtæki upprunaábyrgðir? 

  • Viðskipti með upprunaábyrgðir hófust í Evrópu um aldamótin og hér á landi árið 2011.
  • Íslenskt rafmagn er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þess vegna geta orkufyrirtækin selt upprunaábyrgðir og haft af því tekjur.
  • Gjaldeyristekjurnar eru sífellt að aukast og voru um tveir milljarðar á síðasta ári. Miðað við markaðsverð um áramótin 2022-2023 gæti sala upprunaábyrgða skilað 20 milljörðum í tekjur, sé miðað við alla raforkuframleiðslu á Íslandi.

Af hverju er Ísland með þótt það sé ekki beintengt við Evrópu?

  • Samkvæmt lögum er Ísland hluti af evrópska orkumarkaðnum og er því hluti af reglugerðum, hvatakerfum og öðru í raforkuumhverfinu. Lögin um upprunaábyrgðir raforku voru innleidd árið 2008.
  • Upprunaábyrgðir eru í raun styrkjakerfi sem fólki og fyrirtækjum er frjálst að taka þátt í, óháð því hvort þessir aðilar geti í raun notað endurnýjanlega orku. Kerfið um upprunaábyrgðir er óháð afhendingu raforkunnar.
  • Hugsum okkur Evrópubúa sem vill kaupa endurnýjanlega orku en á ekki kost á því. Upprunaábyrgðir gefa honum kost á að styrkja umhverfisvæna orkuframleiðslu þótt hann fái ekki rafmagnið frá henni í innstungurnar hjá sér.

Tækifæri til að styðja við framleiðslu endurnýjanlegrar raforku

  • Kerfið gefur öllum kaupendum raforku á evrópska raforkumarkaðnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að styðja við góð verk, þar með talið á Íslandi. Upprunaábyrgðir raforku gera það að verkum að framleiðendur orku úr endunýjanlegum orkugjöfum fá auka fjármagn fyrir hana sem gerir framleiðslu hennar enn arðbærari. Þannig spila upprunaábyrgðir stórt hlutverk í útreikningi á arðsemi framleiðslu grænnar orku og gerir það að verkum að meira verður framleitt af henni á kostnað óumhverfisvænnar orku.
  • Fólk í Evrópu hefur misgóðan aðgang að endurnýjanlegri orku. Upprunaábyrgðir eru hugsaðar þannig að raforkukaupendur geti stutt við framleiðslu grænnar orku þó að þeir hafi ekki beinan aðgang að henni sjálfir.

Af hverju er kjarnorka á lista yfir uppruna raforku á Íslandi?

  • Það er vegna þess að þessir orkugjafar eru notaðir til rafmagnsframleiðslu í Evrópu og sýna þarf samsetningu allrar kökunnar í Evrópu í samantekt Orkustofnunnar.
  • Þegar upprunaábyrgð er seld til Evrópu færist endurnýjanleikinn af rafmagninu til landsins sem kaupir. Á móti tekur land seljandans við heildarsamsetningu orkuvinnslunnar eins og hún er í Evrópu. Svona þarf þetta að vera til að bókhaldið gangi upp.
  • Ástæða þess að kjarnorka birtist í samantekt um raforkuuppruna hér á landi er að upprunaábyrgð hefur verið seld til lands þar sem rafmagn er búið til úr kjarnorku.
  • Rafmagnið sem er framleitt á Íslandi er alveg jafn endurnýjanlegt og áður.

Hvar fæ ég upprunaábyrgð/græn skírteini?

Hægt er að fá vottað rafmagn frá söluaðilum á Íslandi og kaupendur geta óskað eftir að fá það staðfest með formlegum hætti.

Hér má lesa nánar um upprunaábyrgðir í íslensku samhengi í skýrslu Environice sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið árið 2018.

Síðan hefur verið uppfærð.