Framtíðin er hafin – opinn ársfundur OR „Framtíðin er hafin“ er yfirskrift ársfundar Orkuveitu Reykjavíkur 2017, sem haldinn verður í Iðnó mánudaginn 3. apríl kl. 14:00. Yfirskriftin vísar til allra þeirra breytinga sem OR og dótturfyrirtækin – Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur – ýmist standa frammi fyrir, taka þátt í að móta eða sjá um að leiða. Fundurinn er öllum opinn og verður sendur út á netinu. Snjallvæðing, loftslagsbreytingar, rafvæðing, sjálfsþjónusta… Rafmagn og önnur græn orka í samgöngum verður til umfjöllunar á fundinum og næstu skref ON í uppbyggingu á hlöðum fyrir rafbíla verða kynnt. Þá verður rætt um nýja tækni í mælingum á orkunotkun heimila og fyrirtækja, snjallvæðingu heilu dreifikerfanna og hvernig netið eykur möguleika viðskiptavina fyrirtækjanna til að leysa sjálfir sín mál hvenær sem er sólarhringsins. Tækniþróun felur í sér hættu á offjárfestingu sem neytendur borga á endanum fyrir. Sú hætta er víða fyrir hendi í orku- og veitukerfunum en hvergi í veröldinni er framleitt eins mikið rafmagn á hvern íbúa og á Íslandi og vandfundið það land þar sem notkun heimila er jafn lítill hluti raforkuvinnslunnar. Dagskrá ársfundarins 1. Ávarp borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri 2. Okkar mikilvæga loftslag, Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar OR 3. Hlöðuball – innviðir fyrir rafbíla, Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON 4. Loftslagsmarkmið OR samstæðunnar, Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri OR 5. Straumar framtíðar, Bjarni Bjarnason, forstjóri OR Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, mun stýra fundi og að honum loknum verður boðið upp á kaffi og með því. Ársfundur OR er öllum opinn meðan húsrúm leyfir og útsending verður frá honum á netinu.