Aðalfundur 2025

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, var kjörin stjórnarformaður Samorku á aðalfundi samtakanna sem haldinn var í Hörpu þann 19. mars. Hún tekur við embættinu af Kristínu Lindu Árnadóttur aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar sem gegnt hefur stöðunni síðustu tvö ár.

Árni Hrannar Haraldsson framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, Aðalsteinn Þórhallsson framkvæmdastjóri HEF Veitna og Ríkarður Ríkarðsson framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun koma allir nýir inn í stjórn samtakanna.

Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Magnús Kristjánsson forstjóri Orkusölunnar, Páll Erland forstjóri HS Veitna og Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála og árangurs hjá Landsneti.

Hjörvar Halldórsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar var kjörinn varamaður í stjórn Samorku í fyrsta sinn. Björk Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs HS Orku og Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar taka sæti í varastjórn og áfram eru þau Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku og Hrefna Hallgrímsdóttir forstöðumaður vatnsmiðla hjá Veitum varamenn.

Stjórn Samorku er þannig skipuð að loknum aðalfundi 2025:

  • Sólrún Kristjánsdóttir Veitur – stjórnarformaður
  • Árni Hrannar Haraldsson ON 
  • Magnús Kristjánsson Orkusölunni 
  • Páll Erland HS Veitur 
  • Aðalsteinn Þórhallsson HEF Veitur  
  • Ríkarður Ríkarðsson Landsvirkjun 
  • Guðlaug Sigurðardóttir Landsnet 

Til vara í stjórn: 

  • Björk Þórarinsdóttir HS Orka 
  • Eyþór Björnsson, Norðurorka
  • Hjörvar Halldórsson, Skagafjarðarveitur 
  • Hrefna Hallgrímsdóttir, Veitur 
  • Kristín Linda Árnadóttir, Landsvirkjun 

Í ársskýrslu er hægt að kynna sér það helsta úr rekstri og starfi Samorku árið 2024. Er þar meðal annars fjallað um innra starf, málsvarahlutverkið, Fagþing raforku og opna fundi.

Í ályktun aðalfundar er lögð rík áhersla á nauðsyn þess að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir orku- og veitumannvirkja til að tryggja orkuöryggi, viðnámsþrótt og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Fjárfestingar og uppbygging orku- og veituinnviða er nauðsynleg til að stuðla að áframhaldandi velsæld samfélagsins og vexti. Óvissa á alþjóðavettvangi og hröð þróun í Evrópu er hvatning fyrir Ísland til að styrkja stöðu sína sem leiðandi þjóð í grænni orkunýtingu og loftslagsmálum.  

Samorka leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi að hagkvæmir kostir í nýtingu vatnsafls og jarðvarma fái framgang, horft verði til vindorku sem mögulegrar þriðju stoðar í orkuframleiðslu landsins, ásamt því að bregðast við vaxandi þörf fyrir heitt vatn. 

Orka sem öryggismál

Samorka bendir á að orka sé lykilþáttur í öryggi þjóðarinnar. Til að draga úr áhættu vegna ytri áfalla þarf orkukerfið að vera fjölbreyttara og dreifðara, með aukinni innlendri sjálfbærri orku. Þá er brýnt að tryggja vöktun og vernd mikilvægra orku- og veituinnviða landsins. 

Aðgerðir nauðsynlegar til að tryggja framtíðina

Samorka leggur áherslu á mikilvægi vatnsverndar og góðrar umgengni um þá verðmætu auðlind sem felst í fersku neysluvatni. Þá kemur fram að miklar breytingar séu framundan í umgjörð fráveitu og þar þurfi að taka mið af íslenskum aðstæðum um leið og víða þurfi að gera betur í hreinsun skólps frá þéttbýli og uppbyggingu blágrænna ofanvatnslausna.  

Aðalfundurinn undirstrikar nauðsyn þess að bæta stjórnsýslu, stytta leyfisveitingaferla og tryggja aðkomu sveitarfélaga í uppbyggingu orku- og veituinnviða. Með skýrum markmiðum og réttri stefnu getur Ísland áfram verið í fremstu röð í sjálfbærri, grænni framtíð og tækifæri og lífsgæði tryggð fyrir land og þjóð.  

Ályktun aðalfundar 2025 í heild sinni: