10. apríl 2007 500 ársverk verk- og tæknifræðinga – yfir 15 milljarðar í rannsóknir, hönnun og vísindi Samorka hefur tekið saman upplýsingar um fjölda háskólamenntaðra í hópi starfsfólks aðildarfyrirtækja sinna, sem og um fjármagn sem þessi fyrirtæki verja til rannsókna, hönnunar og vísinda. Tilefnið er hávær umræða þar sem orkufyrirtækjum er ítrekað stillt upp sem andstæðu við svonefnd þekkingarfyrirtæki, þrátt fyrir tíðar fréttir af útrás orkuþekkingar. Byggt er á upplýsingum úr bókhaldsgögnum íslenskra orku- og veitufyrirtækja. Ljóst er að engin innistæða getur talist fyrir því að stilla íslenskum orku- og veitufyrirtækjum upp sem einhvers konar andstæðu við þekkingarfyrirtæki. Yfir 15 milljarðar í rannsóknir, hönnun og vísindiÁ árunum 2001 til 2006 vörðu orku- og veitufyrirtækin alls um fimmtán milljörðum króna vegna rannsókna og hönnunar, auk fimm hundruð milljóna í styrki til rannsókna- og vísindastarfa á annarra vegum. 730 ársverk háskóla- og tæknimenntaðraHjá íslenskum orku- og veitufyrirtækjum starfa 330 manns með háskóla- og tæknimenntun, þar af 226 verk- og tæknifræðingar. Aðkeypt sérfræðiþjónusta árið 2006 nam 400 ársverkum háskóla- og tæknimenntaðra, þar sem ætla má að séu meðal annars 273 ársverk verk- og tæknifræðinga, auk fjölda ársverka viðskiptafræðinga, jarðfræðinga og fleiri hópa. Samtals gerir þetta 730 ársverk háskóla- og tæknimenntaðra, þar af 499 ársverk verk- og tæknifræðinga. Útrásarfyrirtæki á orkusviði eru ekki með í þessum tölum. Iðnmenntaðir og „ófaglærðir“Þá voru 475 ársverk iðnaðarmanna innt af hendi fyrir orku- og veitufyrirtæki á árinu 2006, og má þar telja rafvirkja, vélsmiði og vélfræðinga. Loks teljast tæplega 600 starfsmenn fyrirtækjanna til ófaglærðra. Varðandi þá sem flokkast sem ófaglærðir skal þess getið að meðalstarfsaldur er með allra hæsta móti hjá orku- og veitufyrirtækjum, eða tæp sextán ár samanborið við sjö ára meðaltal á íslenskum vinnumarkaði. Þá hafa þessi fyrirtæki lengi verið í fararbroddi á sviðum endur- og símenntunar. Mikil þekking býr meðal starfsfólks orku- og veitufyrirtækja, hvort sem horft er til háskólamenntaðra eða annarra í þessum hópi.