Tilnefningar óskast til Nýsköpunarverðlauna Samorku 2023

Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun.

Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á sérstökum nýsköpunarviðburði í haust og verður dagsetning kynnt innan skamms. Þetta er í þriðja sinn sem verðlaunin verða afhent.

Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á:

  • Orku- og/eða veitutengdum tæknilausnum eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki
  • Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar

Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

Óskað er eftir að greinargerð sé skilað að hámarki tvær A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa.

Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is fyrir 20. ágúst. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál.

Alor hlaut Nýsköpunarverðlaun Samorku árið 2022.

332 tillögur um samdrátt í losun atvinnugreina

Ellefu atvinnugreinar hafa nú afhent Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra 332 tillögur að aðgerðum sem stuðla eiga að auknum samdrætti í losun atvinnugreina. Afhendingin fór fram á Grænþingi í Hörpu í gær, í tengslum við útgáfu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins (LVA). LVA er samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda og var vinnan unnin á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.   

Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:  
 
„Til að metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftslagsmálum náist þurfa allir að leggjast á eitt — stjórnvöld, atvinnulíf, sveitarfélög og almenningur í landinu. Það er ánægjulegt að sjá að atvinnulífið hefur stigið þetta skref til þátttöku í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og upplifa þann metnað og áhuga sem þessar 11 atvinnugreinar sýna  með vegvísum sínum. Vegvísarnir verða innlegg í uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem stjórnvöld ætla að kynna fyrir lok árs og hlakka ég til  að halda verkefninu áfram.”    
 

Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 og hefur lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040. Aðkoma íslensks atvinnulífs skiptir sköpum í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru til að sett markmið náist. Ennfremur er aðkoma stjórnvalda nauðsynleg á þessari vegferð hvað varðar regluverk, innviði, hvata til grænna fjárfestinga og stuðning við nýsköpun, tækniþróun og orkuskipti.   

Í því skyni var ákveðið að koma Loftslagsvegvísum atvinnulífsins á legg, en markmið verkefnisins er að auka samstarf og samtal á milli atvinnulífs og stjórnvalda um tækifæri til samdráttar í losun í þeim tilgangi að hraða aðgerðum í þágu loftslagsmarkmiða Íslands og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Ein af grunnforsendum skilvirkrar vinnu að loftslagsmarkmiðum er að orkuspá og opinber gögn endurspegli þá áskorun sem staðið er frammi fyrir.  

Á Grænþingi í Hröpu í gær kynntu fulltrúar atvinnugreinanna vegvísa sína, þar sem rauði þráðurinn var: 

  • Uppbygging orkuinnviða og aðgangur að hreinni orku 
  •  Skilvirkt regluverk og skýr markmið stjórnvalda
  •  Fjárfesting í nýjum búnaði og tækni
  •  Hvatar vegna loftslagstengdra fjárfestinga og framleiðslu
  •  Nýsköpun og rannsóknir
  •  Bætt hringrás

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins innihalda atvinnugreinaskipta vegvísa, sem hafa margir hverjir mælanleg markmið . Þeir geyma einnig sértækar aðgerðir og úrbótatillögur sem snúa bæði að atvinnulífinu og stjórnvöldum um umbætur í loftslagsmálum. Vegvísarnir eru lifandi skjöl sem verða uppfærð reglulega og mun þeim fjölga með uppfærslu aðgerða og fjölgun atvinnugreina.   

Hægt er að nálgast vegvísana inn á www.loftslagsvegvisar.is.   

Tengjum við tækifærin: Ársfundur Samorku 2023

 

Orku- og veituinnviðir eru ein helsta undirstaða samfélagsins. Þeir færa íbúum og fyrirtækjum raforku, heitt og kalt vatn og góða fráveitu, sem er forsenda annarrar atvinnustarfsemi og lífsgæða í landinu. Orkuskiptin sem framundan eru kalla á umbyltingu þessara innviða og umfangsmiklar fjárfestingar.

Ársfundur Samorku verður haldinn miðvikudaginn 15. mars á Grand hótel Reykjavík og hefst kl. 13. Umfjöllunarefnið að þessu sinni eru þær áskoranir og þau tækifæri sem felast í orkuskiptunum, með sérstakri áherslu á flutnings- og dreifikerfi raforku. Kynnt verður ný greining um fjárfestingaþörf í orku- og veituinnviðum. Gert er ráð fyrir að fundurinn standi í um 90 mínútur.

Fram koma:

Nýkjörinn stjórnarformaður Samorku
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: Guðlaugur Þór Þórðarson
Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku
Almar Barja, fagsviðsstjóri Samorku
Baldur Dýrfjörð, lögfræðingur Samorku
Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku

Orkuskiptin um allt land – myndbandsinnslög um uppbyggingaráform um orkuskipti og reynslu af þeim sem þegar eru komin í gagnið.

Pallborðsumræður:
Erla Sigríður Gestsdóttir, teymisstjóri orku hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar
Kjartan Rolf Árnason, deildarstjóri kerfisstýringar RARIK
Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna

 

Léttar veitingar í fundarlok.

Aðgangur er ókeypis er skráningar er óskað í formið hér fyrir neðan svo hægt sé að áætla sætafjölda og lágmarka matarsóun.

Fundinum verður einnig streymt á vef Samorku og á Facebook Samorku.

    Allt um upprunaábyrgðir raforku

    Tilgangur og virkni kerfis um upprunaábyrgðir raforku

    Upprunaábyrgðir (græn skírteini) í hnotskurn

    • Samkvæmt lögum er Ísland hluti af evrópska orkumarkaðnum og þar með vottunarkerfi um uppruna rafmagns.
    • Upprunaábyrgðir styðja við endurnýjanlega orkuframleiðslu og þar með sporna þær við hlýnun jarðar.
    • Án upprunaábyrgðar telst rafmagnið vera úr sameiginlegum orkupotti Evrópu. Þess vegna koma orkugjafar sem ekki eru notaðir á Íslandi, eins og til dæmis kjarnorka, fram á samantekt Orkustofnunar um uppruna raforku hér á landi.
    • Þú notar endurnýjanlega orku á Íslandi en til þess að fá hana vottaða sem slíka þurfa upprunaábyrgðir að fylgja.

    ALGENGAR SPURNINGAR: 

    Upprunaábyrgðir: Hvað er það?

    • Upprunaábyrgðir voru teknar upp til að sporna við hlýnun jarðar í samræmi við alþjóðlega sáttmála.
    • Upprunaábyrgðir eru til þess að framleiðendur grænnar orku fái hærra verð fyrir hana – þannig verði meira framleitt af henni.
    • Upprunaábyrgðir eru staðfesting á að ákveðið magn rafmagns hafi verið framleitt á endurnýjanlegan hátt.
    • Upprunaábyrgðir votta rafmagnið með viðurkenndum hætti. Fyrir þá vottun þarf að greiða eins og aðrar alþjóðlegar vottanir. Engin skylda er til að kaupa þessa vottun, en einhverjir gætu séð hag í því að gera það.
    • Upprunaábyrgðir hafa hvorki áhrif á aðrar loftslagsaðgerðir sem miðast að því að minnka losun né á skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

    Af hverju selja íslensk orkufyrirtæki upprunaábyrgðir? 

    • Viðskipti með upprunaábyrgðir hófust í Evrópu um aldamótin og hér á landi árið 2011.
    • Íslenskt rafmagn er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þess vegna geta orkufyrirtækin selt upprunaábyrgðir og haft af því tekjur.
    • Gjaldeyristekjurnar eru sífellt að aukast og voru um tveir milljarðar á síðasta ári. Miðað við markaðsverð um áramótin 2022-2023 gæti sala upprunaábyrgða skilað 20 milljörðum í tekjur, sé miðað við alla raforkuframleiðslu á Íslandi.

    Af hverju er Ísland með þótt það sé ekki beintengt við Evrópu?

    • Samkvæmt lögum er Ísland hluti af evrópska orkumarkaðnum og er því hluti af reglugerðum, hvatakerfum og öðru í raforkuumhverfinu. Lögin um upprunaábyrgðir raforku voru innleidd árið 2008.
    • Upprunaábyrgðir eru í raun styrkjakerfi sem fólki og fyrirtækjum er frjálst að taka þátt í, óháð því hvort þessir aðilar geti í raun notað endurnýjanlega orku. Kerfið um upprunaábyrgðir er óháð afhendingu raforkunnar.
    • Hugsum okkur Evrópubúa sem vill kaupa endurnýjanlega orku en á ekki kost á því. Upprunaábyrgðir gefa honum kost á að styrkja umhverfisvæna orkuframleiðslu þótt hann fái ekki rafmagnið frá henni í innstungurnar hjá sér.

    Tækifæri til að styðja við framleiðslu endurnýjanlegrar raforku

    • Kerfið gefur öllum kaupendum raforku á evrópska raforkumarkaðnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að styðja við góð verk, þar með talið á Íslandi. Upprunaábyrgðir raforku gera það að verkum að framleiðendur orku úr endunýjanlegum orkugjöfum fá auka fjármagn fyrir hana sem gerir framleiðslu hennar enn arðbærari. Þannig spila upprunaábyrgðir stórt hlutverk í útreikningi á arðsemi framleiðslu grænnar orku og gerir það að verkum að meira verður framleitt af henni á kostnað óumhverfisvænnar orku.
    • Fólk í Evrópu hefur misgóðan aðgang að endurnýjanlegri orku. Upprunaábyrgðir eru hugsaðar þannig að raforkukaupendur geti stutt við framleiðslu grænnar orku þó að þeir hafi ekki beinan aðgang að henni sjálfir.

    Af hverju er kjarnorka á lista yfir uppruna raforku á Íslandi?

    • Það er vegna þess að þessir orkugjafar eru notaðir til rafmagnsframleiðslu í Evrópu og sýna þarf samsetningu allrar kökunnar í Evrópu í samantekt Orkustofnunnar.
    • Þegar upprunaábyrgð er seld til Evrópu færist endurnýjanleikinn af rafmagninu til landsins sem kaupir. Á móti tekur land seljandans við heildarsamsetningu orkuvinnslunnar eins og hún er í Evrópu. Svona þarf þetta að vera til að bókhaldið gangi upp.
    • Ástæða þess að kjarnorka birtist í samantekt um raforkuuppruna hér á landi er að upprunaábyrgð hefur verið seld til lands þar sem rafmagn er búið til úr kjarnorku.
    • Rafmagnið sem er framleitt á Íslandi er alveg jafn endurnýjanlegt og áður.

    Hvar fæ ég upprunaábyrgð/græn skírteini?

    Hægt er að fá vottað rafmagn frá söluaðilum á Íslandi og kaupendur geta óskað eftir að fá það staðfest með formlegum hætti.

    Hér má lesa nánar um upprunaábyrgðir í íslensku samhengi í skýrslu Environice sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið árið 2018.

    Síðan hefur verið uppfærð. 

    Óskað eftir tilnefningum til Menntaverðlauna

    Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu þriðjudaginn 14. febrúar 2023. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Einungis skráðir aðildarfélagar SA eru gildir með tilnefningu. 

    Tilnefningar sendist í tölvupósti til Samtaka atvinnulífsins á verdlaun@sa.is, eigi síðar en mánudaginn 23. janúar.

    Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum. Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

    Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:

    • að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins
    • að sem flest starfsfólk taki virkan þátt
    • að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum
    • að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar

    Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

    • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja
    • samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.

    Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta tilnefningar. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.  Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

    Matarkista Íslands í sókn

    Tækifæri til matvælaframleiðslu allt árið um kring á Suðurlandi eru fjölmörg. Til staðar er græn orka, gott ræktarland og staðgóð þekking í þágu nýsköpunar á þessu sviði. Til þess að virkja þessi tækifæri þarf bara að kveikja hugmyndirnar! Og það er einmitt aðalhlutverk Sveins Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra Orkídeu, sem er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

    Sveinn Aðalsteinsson er viðmælandi þáttarins.